Fjallið Skjaldbreiður
Fanna skautar faldi háum
fjallið, allra hæða val,
hrauna veitir bárum bláum
breiðan fram um heiðardal.
Löngu hefur Logi reiður
lokið steypu þessa við.
Ógnaskjöldur bungubreiður
ber með sóma réttnefnið.
Ríð ég háan Skjaldbreið skoða,
skín á tinda morgunsól,
glöðum fágar röðulroða
reiðarslóðir, dal og hól.
Beint er í norður fjallið fríða.
Fákur eykur hófaskell.
Sér á leiti Lambahlíða
og litlu sunnar Hlöðufell.
Vel á götu ber mig Baldur.
Breikkar stirnað eldasund.
Hvenær hefur heims um aldur
hraun það brunað fram um grund?
Engin þá um Ísafoldu
unað hafa lífi dýr.
Enginn leit þá maður moldu,
móðu steins er undir býr.
Titraði jökull, æstust eldar.
Öskraði djúpt í rótum lands,
eins og væru ofan felldar
allar stjörnur himnaranns,
eins og ryki mý eða mugga,
margur gneisti um loftið fló.
Dagur huldist dimmum skugga,
dunaði gjá og loga spjó.
Belja rauðar blossa móður,
blágrár reykur yfir sveif,
undir hverfur runni, rjóður,
reynistóð í hárri kleif.
Blómin ei þá blöskrun þoldu,
blikna hvert í sínum reit,
höfði drepa hrygg við moldu.
Himna drottinn einn það leit.
Vötnin öll, er áður féllu
undan hárri fjallaþröng,
skelfast, dimmri hulin hellu,
hrekjast fram um undirgöng.
Öll þau hverfa að einu lóni,
elda þar sem flóði sleit.
Djúpið mæta, mest á Fróni,
myndast á í breiðri sveit.
Kyrrt er hrauns á breiðum boga,
blundar land í þráðri ró.
Glaðir næturglampar loga,
geislum sá um hæð og mó.
Brestur þá og yzt með öllu
í undirhvelfing hraunið sökk.
Dunar langt um himinhöllu.
Hylur djúpið móða dökk.
Svo er treyst með ógn og afli
alþjóð minni helgað bjarg.
Breiður, þakinn bláum skafli,
bundinn treður foldarvarg.
Grasið þróast grænt í næði,
glóðir þar sem runnu fyrr.
Styður völlinn bjarta bæði
berg og djúp. Hann stendur kyrr.
Hver vann hér svo að með orku?
Aldrei neinn svo vígi hlóð.
Búinn er úr bálastorku
bergkastali frjálsri þjóð.
Drottins hönd þeim vörnum veldur.
Vittu, barn, sú hönd er sterk. -
Gat ei nema guð og eldur
gjört svo dýrðlegt furðuverk.
Hamragirðing há við austur
Hrafna- rís úr breiðri -gjá.
Varnameiri veggur traustur
vestrið slítur bergi frá.
Glöggt ég skil, hví Geitskór vildi
geyma svo hið dýra þing.
Enn þá stendur góð í gildi
gjáin, kennd við almenning.
Heiðarbúar! glöðum gesti
greiðið för um eyðifjöll!
Einn ég treð með hundi og hesti
hraun - og týnd er lestin öll.
Mjög þarf nú að mörgu að hyggja,
mikið er um dýrðir hér!
Enda skal ég úti liggja,
engin vættur grandar mér.
fjallið, allra hæða val,
hrauna veitir bárum bláum
breiðan fram um heiðardal.
Löngu hefur Logi reiður
lokið steypu þessa við.
Ógnaskjöldur bungubreiður
ber með sóma réttnefnið.
Ríð ég háan Skjaldbreið skoða,
skín á tinda morgunsól,
glöðum fágar röðulroða
reiðarslóðir, dal og hól.
Beint er í norður fjallið fríða.
Fákur eykur hófaskell.
Sér á leiti Lambahlíða
og litlu sunnar Hlöðufell.
Vel á götu ber mig Baldur.
Breikkar stirnað eldasund.
Hvenær hefur heims um aldur
hraun það brunað fram um grund?
Engin þá um Ísafoldu
unað hafa lífi dýr.
Enginn leit þá maður moldu,
móðu steins er undir býr.
Titraði jökull, æstust eldar.
Öskraði djúpt í rótum lands,
eins og væru ofan felldar
allar stjörnur himnaranns,
eins og ryki mý eða mugga,
margur gneisti um loftið fló.
Dagur huldist dimmum skugga,
dunaði gjá og loga spjó.
Belja rauðar blossa móður,
blágrár reykur yfir sveif,
undir hverfur runni, rjóður,
reynistóð í hárri kleif.
Blómin ei þá blöskrun þoldu,
blikna hvert í sínum reit,
höfði drepa hrygg við moldu.
Himna drottinn einn það leit.
Vötnin öll, er áður féllu
undan hárri fjallaþröng,
skelfast, dimmri hulin hellu,
hrekjast fram um undirgöng.
Öll þau hverfa að einu lóni,
elda þar sem flóði sleit.
Djúpið mæta, mest á Fróni,
myndast á í breiðri sveit.
Kyrrt er hrauns á breiðum boga,
blundar land í þráðri ró.
Glaðir næturglampar loga,
geislum sá um hæð og mó.
Brestur þá og yzt með öllu
í undirhvelfing hraunið sökk.
Dunar langt um himinhöllu.
Hylur djúpið móða dökk.
Svo er treyst með ógn og afli
alþjóð minni helgað bjarg.
Breiður, þakinn bláum skafli,
bundinn treður foldarvarg.
Grasið þróast grænt í næði,
glóðir þar sem runnu fyrr.
Styður völlinn bjarta bæði
berg og djúp. Hann stendur kyrr.
Hver vann hér svo að með orku?
Aldrei neinn svo vígi hlóð.
Búinn er úr bálastorku
bergkastali frjálsri þjóð.
Drottins hönd þeim vörnum veldur.
Vittu, barn, sú hönd er sterk. -
Gat ei nema guð og eldur
gjört svo dýrðlegt furðuverk.
Hamragirðing há við austur
Hrafna- rís úr breiðri -gjá.
Varnameiri veggur traustur
vestrið slítur bergi frá.
Glöggt ég skil, hví Geitskór vildi
geyma svo hið dýra þing.
Enn þá stendur góð í gildi
gjáin, kennd við almenning.
Heiðarbúar! glöðum gesti
greiðið för um eyðifjöll!
Einn ég treð með hundi og hesti
hraun - og týnd er lestin öll.
Mjög þarf nú að mörgu að hyggja,
mikið er um dýrðir hér!
Enda skal ég úti liggja,
engin vættur grandar mér.