Vísur Íslendinga
Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur,
er gleðin skín á vonarhýrri brá?
Eins og á vori laufi skrýðist lundur,
lifnar og glæðist hugarkætin þá.
Og meðan þrúgna gullnu tárin glóa
og guðaveigar lífga sálaryl,
þá er það víst, að beztu blómin gróa
í brjóstum, sem að geta fundið til.

Látum því, vinir, vínið andann hressa,
og vonarstundu köllum þennan dag,
og gesti vora biðjum guð að blessa
og bezt að snúa öllum þeirra hag.
Látum ei sorg né söknuð vínið blanda,
þó senn í vinahópinn komi skörð,
en óskum heilla og heiðurs hverjum landa,
sem heilsar aftur vorri fósturjörð.

Já, heill og heiður, Halldór okkar góður!
Þú hjartans beztu óskum kvaddur sért,
því þú ert vinur vorrar gömlu móður
og vilt ei sjá, að henni neitt sé gert.
Gakktu með karlmannshug að ströngu starfi,
studdur við dug og lagasverðið bjart,
og miðla þrátt af þinnar móður arfi
þeim, sem að glata sínum bróðurpart.

Og heill ag heiður, hinir landar góðu,
sem hólmann gamla farið nú að sjá,
þar sem að vorar vöggur áður stóðu
og vinarorðið fyrst á tungu lá.
Hamingjan veiti voru fósturláði,
svo verði mörgum deyfðarvana breytt,
allan þann styrk af ykkar beggja ráði,
sem alúð, fjör og kraftar geta veitt.

Það er svo tæpt að trúa heimsins glaumi,
því táradöggvar falla stundum skjótt,
og vinir berast burt á tímans straumi,
og blómin fölna á einni hélunótt. -
Því er oss bezt að forðast raup og reiði
og rjúfa hvergi tryggð né vinarkoss,
en ef við sjáum sólskinsblett í heiði
að setjast allir þar og gleðja oss.

Látum því, vinir, vínið andann hressa
og vonarstundu köllum þennan dag,
og gesti vora biðjum guð að blessa
og bezt að snúa öllum þeirra hag.
Því meðan þrúgna gullnu tárin glóa
og guðaveigar lífga sálaryl,
þá er það víst, að beztu blómin gróa
í brjóstum, sem að geta fundið til.

 
Jónas Hallgrímsson
1807 - 1845


Ljóð eftir Jónas Hallgrímsson

Uppkast að "Ég bið að heilsa!"
Fremrinámar
Víti
Heima
Skrælingjagrátur
Hugnun
Batteríski syndarinn
Á gömlu leiði 1841
La Belle
Andvökusálmur
Á nýjársdag 1845
Bósi
Ó, þú jörð
Ég ætlaði mér að yrkja
In aquilonem nocturnum
Dalabóndinn í óþurrknum
Réttarvatn
Óhræsið
Laxinn
Dalvísa
Vísur Íslendinga
Ég bið að heilsa
Söknuður
Ferðalok
Bjarni Thorarensen
Saknaðarljóð
Ísland
Stökur
La belle
Ad matrem orbatam
Vorvísa
Kvölddrykkjan
Gunnarshólmi
Móðurást
Íslands minni
Einbúinn
Galdraveiðin
Hulduljóð
Ásta
Helvíti
Fjallið Skjaldbreiður