Óhræsið
Ein er upp til fjalla,
yli húsa fjær,
út um hamrahjalla,
hvít með loðnar tær.
Brýst í bjargarleysi,
ber því hyggju gljúpa,
á sér ekkert hreysi
útibarin rjúpa.

Valur er á veiðum,
vargur í fugla hjörð,
veifar vængjum breiðum,
vofir yfir jörð.
Otar augum skjótum
yfir hlíð og lítur
kind sem köldum fótum
krafsar snjó og bítur.

Rjúpa ræður að lyngi
- raun er létt um sinn ?
skýst í skafrenningi
skjót í krafsturinn,
tínir, mjöllu mærri,
mola sem af borði
hrjóta kind hjá kærri,
kvakar þakkarorði.

Valur í vígahuga
varpar sér á teig,
eins og fiskifluga
fyrst úr löngum sveig
hnitar hringa marga.
Hnífill er að bíta.
Nú er bágt til bjarga,
blessuð rjúpan hvíta.

Elting ill er hafin,
yfir skyggir él,
rjúpan vanda vafin
veit sér búið hel.
Eins og álmur gjalli,
örskot veginn mæli,
fleygist hún úr fjalli
að fá sér eitthvert hæli.

Mædd á manna besta
miskunn loks hún flaug,
inn um gluggan gesta
guðs í nafni smaug.
Úti garmar geltu,
gólið hrein í valnum -
kastar hún sér í keltu
konunnar í dalnum.

Gæðakonan góða
grípur fegin við
dýri dauðamóða,
dregur háls úr lið.
Plokkar, pils upp brýtur,
pott á hlóðir setur,
segir: happ þeim hlýtur ?
og horaða rjúpu étur.  
Jónas Hallgrímsson
1807 - 1845


Ljóð eftir Jónas Hallgrímsson

Uppkast að "Ég bið að heilsa!"
Fremrinámar
Víti
Heima
Skrælingjagrátur
Hugnun
Batteríski syndarinn
Á gömlu leiði 1841
La Belle
Andvökusálmur
Á nýjársdag 1845
Bósi
Ó, þú jörð
Ég ætlaði mér að yrkja
In aquilonem nocturnum
Dalabóndinn í óþurrknum
Réttarvatn
Óhræsið
Laxinn
Dalvísa
Vísur Íslendinga
Ég bið að heilsa
Söknuður
Ferðalok
Bjarni Thorarensen
Saknaðarljóð
Ísland
Stökur
La belle
Ad matrem orbatam
Vorvísa
Kvölddrykkjan
Gunnarshólmi
Móðurást
Íslands minni
Einbúinn
Galdraveiðin
Hulduljóð
Ásta
Helvíti
Fjallið Skjaldbreiður