Glefsur


Öldin er ný en eitt er samt
ýmislegt þó að hverfi
Ennþá spilar með okkar þjóð
ámátlegt valdakerfi.
Pólitíkusar brosa breitt
búast í skrautleg gerfi.
Það verður sjálfsagt alltaf eins
annað þó tíminn sverfi.

Fjárglæframanna flærð og brögð
fyrrum með stólpakjafti
Jónas fordæmdi jafnt og þétt
jafnaðarflokka skapti.
Slitinna hefða bygging brast
brakaði í hverjum rafti.
Álengdar valdsins öldruð sveit
undrandi stóð og gapti.

Ólafur Thors með ógnarraust
orustur margar þreytti
eldsnöggt við fjenda brögðum brást
brandara af sér reytti.
Félagi Einar Olgeirsson
áherslum sterkum beitti
þegar hann orðum ótt og títt
út yfir landið þeytti.

Hannibal braust um harla fast
helst þó á Vestfjörðonum.
Baráttufélög fjöldans þar
fyllti með glæstum vonum.
Grútfúlir löngum auga illt
auðjöfrar gáfu honum.
En fylgið var traust og áfram óx.
─ Ekki hvað síst hjá konum.

Ráðherrar mæðast mörgu í
marðir af lamstri orða.
Ábyrgð að fullu axla þeir
─ innan nokkurra skorða.
Þeir hafa lækkað launin sín
lítið því hafa að borða.
Háttsettum aulum öllum frá
embættismissi forða.

Eflaust er margur utanlands
afburða ræðumaður.
Óbama fylgi safnar sér
sjaldan í orðum staður.
Mér er þó jafnan meir í hug
Mathiesens bull og þvaður.
Þegar hann málin skýra skal
skiptast á hik og blaður.

Byltingu ullu búsáhöld
barsmíð á hlemmum dundi.
Heilög Jóhanna hló og skók
hnefa á mörgum fundi.
Ingibjörg, Geir og allt það lið
ofan af stalli hrundi.
Sakleysisbaulið sífellt í
Seðlabankanum drundi.

Gleymd er sagan og gullsins þý
gildunum fornu tapa.
Ráðlaus og hrædd þau reika um
ruslahaug eigin glapa.
Þykjast örugg en áfram þó
oftast að verkum hrapa.
Víst er það eitt að Ísland nýtt
ekki þeim tekst að skapa.

Annað er það að öldin mun
efalaust líða svona:
Líkt og alltaf hér áður fyrr
æskudjörf skörungskona
finnur einhvern í fræknum hóp
fjölmargra landsins sona.
Af þeim fæðist svo Ísland nýtt
ætti að mega vona.


 
Ragnar Böðvarsson
1935 - ...


Ljóð eftir Ragnar

Söngur melsins
Kvöldganga
Mánaspjall
Þróun
Tamning
Hringfætla
Í Nólsey
Drög að mansöng
Heimferð
Í búrinu
Sjómannasöngur frá Flandern
Dísin (1968)
Til náungans (1960–1970)
Hvers vegna? (um 1965)
í orðastað stjórnmálamanns
Samhljóðavísur
Álfamærin
Glefsur
Bragreglur
Haustljóð
Nýtt Kötukvæði
Afmæliskveðja
Í Eldhrauni (2008)
Öngstræti
Minningar sægreifans
Úr stjórnmálalífi
Eitt er öruggt
Oddaflug
Eldhúsdagsumræður júní 2011
Sumar 2011
Kveðja gests
Haust 2011
Sólhvarfaljóð
Ráðaleysi
Endarímið góða
Andvaka
Köllun
Norðurferð