Kveðja gests
Ég sit á stól við gluggann og sé hve gatan iðar
því sífellt streyma bílarnir upp og niður hana
en lengst úti við hafsbrúnina sígur sól til viðar
og sama hringinn rólar hún af nokkuð gömlum vana.

Á borðinu til hægri er býsna öflug tölva
og bráðum þríf ég músina og leit á vefnum byrja
því hann er líkrar náttúru og gömul, vitur völva
og veitir svör við öllu sem þarf ég um að spyrja.

Svo man ég allt í einu það sem eldra fólkið sagði
frá undarlegri tilveru á sínum bernskudögum.
Á sumt af því ég eiginlega engan trúnað lagði
það er svo margt sem varla stenst í þessum gömlu sögum.

Þá voru engir bílar, en allt var flutt á hestum
og ekki þekktist rafmagn og fáir höfðu síma.
Ef lífið væri þannig núna eflaust fyndist flestum
að fátt til bjargar væri á svo hræðilegum tíma.

Á flestum bæjum var þó oftast eitthvað til að sjóða
og ótal margt var skapað af vinnufúsum höndum.
Þá vissi enginn ennþá neitt um internetið góða
en eigi að síður fréttist margt sem gerðist úti í löndum.

Svo einhvern veginn tókst þetta allt hér forðum daga
en erfitt stundum reynist mér að skilja sumt af þessu.
Þótt enginn væri bíllinn var alveg segin saga
að sunnudaga alla fór liðið allt til messu.

En sólin gengur ennþá hinn sama hring og forðum
og sama land við byggjum og þá er nokkurs virði
að þó að siðir gleymist og gangi flest úr skorðum
sé gætt að því að þjóðin um rætur sína hirði.
 
Ragnar Böðvarsson
1935 - ...
Flutt á menningarsamkomu á Borg í Grímsnesi sumarið 2011


Ljóð eftir Ragnar

Söngur melsins
Kvöldganga
Mánaspjall
Þróun
Tamning
Hringfætla
Í Nólsey
Drög að mansöng
Heimferð
Í búrinu
Sjómannasöngur frá Flandern
Dísin (1968)
Til náungans (1960–1970)
Hvers vegna? (um 1965)
í orðastað stjórnmálamanns
Samhljóðavísur
Álfamærin
Glefsur
Bragreglur
Haustljóð
Nýtt Kötukvæði
Afmæliskveðja
Í Eldhrauni (2008)
Öngstræti
Minningar sægreifans
Úr stjórnmálalífi
Eitt er öruggt
Oddaflug
Eldhúsdagsumræður júní 2011
Sumar 2011
Kveðja gests
Haust 2011
Sólhvarfaljóð
Ráðaleysi
Endarímið góða
Andvaka
Köllun
Norðurferð