Afmæliskveðja


Heillakveðja–Og örfá orð
einkum til þess að minnast
hvernig þeim er við hyllum nú
hef ég fengið að kynnast.
Langt er nú síðan fyrst ég fór
til fundar með hagyrðingum
og sá þar er Heiðmar seiddi fram
sönginn með tökum slyngum

Seinna tók ég að sækja heim
söngkvöld austur í Flóa.
Ótalin lög þar óma glatt
út yfir sund og móa.
Auðvelt er það að una við
og alltaf svo létt að syngja
er píanótónar gleðja geð
og gömlu sálirnar yngja.

Tónlistin kemur víða við
varla má gleyma þessu:
Orgel sem lýtur styrkri stjórn
styður við helga messu.
Afmælisþeginn æfir kór
eflaust af ljúfri snilli.
Raddirnar allar ræktar þar.
–Ræktar svo tré á milli.

Tónlist er galdur. Um það er
engum blöðum að fletta.
Til merkis um hennar mikla afl
meðal annars er þetta:
Fyrir löngu mín ráma raust
af reykingum tók að bila
en jafnvel hún nær að hljóma með
er Heiðmar byrjar að spila.

Afmælisþeginn aðra list
iðkar af kappi löngum.
Gjafir af borðum Braga skálds
ber hann í drjúgum föngum.
Fljúga í smessum út um allt
óhemju býsn af stökum.
Þær hafa margoft lífið létt
á löngum og hljóðum vökum.

Þegar frá öðrum önnum gefst
einstöku sinnum næði
gamlar dagbækur, bréf og blöð
býr hann í slitsterk klæði.
Þannig er haldið haga til
húnvetnskrar sveitar arfi
sögu bygginga, söngs og leiks
sögu af lífi og starfi.

Mun þó að sönnu mest um vert
mennsku og viðmótshlýju.
Lyftum nú Heiðmars heillaskál
og hyllum hann svo að nýju.
Við fjölskylduborð í húsi hans
hamingjan jafnan sitji.
Árnaðarkveðjur einlægar
orðin mín smáu flytji.
 
Ragnar Böðvarsson
1935 - ...
Flutt 1. ágúst 2007 í sextugsafmæli Inga Heiðmars Jónssonar kennara og söngfrömuðar á Selfossi.


Ljóð eftir Ragnar

Söngur melsins
Kvöldganga
Mánaspjall
Þróun
Tamning
Hringfætla
Í Nólsey
Drög að mansöng
Heimferð
Í búrinu
Sjómannasöngur frá Flandern
Dísin (1968)
Til náungans (1960–1970)
Hvers vegna? (um 1965)
í orðastað stjórnmálamanns
Samhljóðavísur
Álfamærin
Glefsur
Bragreglur
Haustljóð
Nýtt Kötukvæði
Afmæliskveðja
Í Eldhrauni (2008)
Öngstræti
Minningar sægreifans
Úr stjórnmálalífi
Eitt er öruggt
Oddaflug
Eldhúsdagsumræður júní 2011
Sumar 2011
Kveðja gests
Haust 2011
Sólhvarfaljóð
Ráðaleysi
Endarímið góða
Andvaka
Köllun
Norðurferð