Minningar sægreifans

Hann pabbi var glúrinn og talsverðar eignir hann átti
svo ýmislegt hlaut ég í fyllingu tímans í arf.
Sumt varð nú að litlu og áhuginn einkum var bundinn
við útgerð og vinnslu er síðan varð lengstaf mitt starf.
Og það var svo gaman er báturinn birtist með aflann
og bílarnir fluttu hann í stöð sem við nafn mitt var kennd.
Þar starfaði fólk sem var þekkt fyrir vandaða vinnu
og varan að lokum til fjarlægra landa var send.

En leiðinlegt fannst mér í biðstofum bankanna að hanga,
því berjast við lausafjárvandræði margoft ég hlaut.
Samt bjargaðist þetta og starfsemin styrktist og efldist
og stuðnings og velvildar mannskapsins jafnan ég naut.
Ég stækkaði bátinn og byggði upp nýtísku vinnslu
og bætti við allskonar tækjum. Og loksins mér tókst
að verða sá stærsti og fremsti í firðinum öllum
og flest gekk mér orðið í haginn og veldi mitt jókst.

Svo var það einn daginn að öllum sem útgerðir ráku
var úthlutað kvóta. Og fljótlega dýrmætur varð
hver óveiddur þorskur og annað er synti í sjónum
og sala á kvótanum skapaði fjölmörgum arð.
En mér þótti lengi vel réttast að eiga minn áfram,
en einstöku sinnum ég leiddi samt hugann að því
að svipað og fleiri ég ætti það vafalaust inni
að eignast nú dálítinn pening og taka mér frí.

Svo barði að dyrunum ungur og ákafur maður.
Hann opnaði veskið og kynstur af seðlum mér bauð.
Ég seldi honum kvótann. Og báturinn bíður þess aðeins
að brenna til ösku og stöðin er þögul og auð.
Mér finnst þetta dapurt en aldrei á allt verður kosið.
Nú uni ég löngum á kvöldin við tölvunnar skjá
og sé hvernig inneignatölurnar hækka og hækka.
–Ég held að ég þurfi ekki framar neinn víxil að slá.

Já, víst er það munur að vera nú hættur að fullu
að vasast í róðrum og slíku. Og allt er svo létt.
Já, stundum um of fyrir þann sem er vanur að vinna,
ég vann eins og jálkur hér áður. Og sanngjarnt og rétt
mér finnst að ég njóti í einhverju árangurs nokkurs
af erfiðum störfum og flóknum sem vinna ég hlaut
Og þannig ég geti í ellinni öruggur lifað
og ánægður notið þess hlutar sem féll mér í skaut.

Var einhver að kalla? Ég held að ég heyri í fjarska
í hæglátum manni sem all lengi réri hjá mér.
Og duglegur var hann. Hann undi sér aðeins á sjónum,
en illa það fór samt að lokum og grimmúðug er
sú ráðstöfun Drottins að láta hann laskast í slysi.
Mér líst ekki á að hann finni neitt þægilegt starf.
En hann fær nú bætur og alltaf þær eru að hækka.
–Svo er þetta lítið sem sextugur piparkall þarf.

En það er víst réttast að hætta að hugsa um þetta,
ég held að ég líti á skjáinn og fylgist með því
að þetta sem á ég í allskonar bréfum og sjóðum
sé öruggt og geti í fyllingu tímans á ný
átt hlut að því verki að skapa hér farsæla framtíð,
því fullvíst er eitt þó að margt sýnist óskýrt og valt:
Sá stórfelldi auður sem athafnamaðurinn skapar
er uppspretta gæða sem dreifast um þjóðlífið allt.

Hver kallaði núna? Jú, þetta er rödd sem ég þekki
en það finnst mér skrítið hve lágvær og döpur hún er.
Því konan sem á hana jafnan var glaðlynd og glettin,
svo gengu í hvelli öll verkin sem tók hún að sér.
En núna er stöðin mín aflögð og ekkert að gera
og efalaust dagarnir langir. Og nú er mér sagt
að húsið sitt sé hún að missa og maðurinn veikur.
Æ, margþætt er okið sem stundum á fólkið er lagt.

En að því má gæta að hún var nú hálfgerður auli
að halda því saman til lengdar sem vann hún sér inn.
Því hún var svo gjörn á að eyða í allskonar glingur
svo allt er í voða ef tekjurnar minnka um sinn.
Það kom fyrir lítið þó legði hún fyrir um tíma,
hún lést ekki heyra þó margoft ég benti henni á
að kaupa sér þrælörugg bréf sem í bönkunum finnast
þó betri og tryggari vexti sé hvergi að fá.

Og við sem að stjórnuðum rekstri sem aflaði auðsins
af alúð og nærfærni gætum hans, staðráðnir í
að láta hann vaxa og verðmæti skapa á ný.
 
Ragnar Böðvarsson
1935 - ...


Ljóð eftir Ragnar

Söngur melsins
Kvöldganga
Mánaspjall
Þróun
Tamning
Hringfætla
Í Nólsey
Drög að mansöng
Heimferð
Í búrinu
Sjómannasöngur frá Flandern
Dísin (1968)
Til náungans (1960–1970)
Hvers vegna? (um 1965)
í orðastað stjórnmálamanns
Samhljóðavísur
Álfamærin
Glefsur
Bragreglur
Haustljóð
Nýtt Kötukvæði
Afmæliskveðja
Í Eldhrauni (2008)
Öngstræti
Minningar sægreifans
Úr stjórnmálalífi
Eitt er öruggt
Oddaflug
Eldhúsdagsumræður júní 2011
Sumar 2011
Kveðja gests
Haust 2011
Sólhvarfaljóð
Ráðaleysi
Endarímið góða
Andvaka
Köllun
Norðurferð