Öngstræti

Greiðar brautir áfram ek ég,
allt í einu man ég þó
að ég gleymdi einu heima.
–Aldrei hef ég með mér nóg–.
Nú er aðeins eitt að gera:
aftur snúa og leita að
skemmstu leiðum heim í hlað.

Vænleg braut mér þykir þessi
þótt hún liggi niður að strönd.
Inn með henni áfram kemst ég
yfir slétt og greiðfær lönd.
Það er víst að þannig finn ég
þakinn hörðu biki veg.
Eftir honum ætla ég.

Krappa beygju brautin tekur
brekku miðri liggur í.
Eigi að síður áfram held ég,
óþarft mun að kvíða því
að ég geti ekki fundið
áfram veg sem nota má
svo ég marki megi ná.

Þarna fyrir framan bílinn
ferleg hindrun birtist mér:
hrúga stór af gráu grjóti.
Greiðfær varla leiðin er
framhjá því. Og fært er ekki
að fara heldur yfir það.
Leið ég hlýt að leita að.

Niðri á strönd er steyptur vegur,
stefna þangað nú ég verð.
Áfram niður bratta brekku
bíllinn mjakast hæga ferð
yfir klappir, aur og þýfi
ofan á blómum skýdda grund.
Eftir henni ég ek um stund.

Framundan er brautin beina
breið og slétt. Og nú er skammt
að mér sýnist inn í bæinn.
Ekki er þrautum lokið samt,
ljótur tálmi lokar vegi
líkt og falli að stöfum hurð.
Varla ek ég yfir skurð.

Nú er frekar illt í efni.
Á því verður, held ég, bið
að ég komist yfir skurðinn
og ekki get ég snúið við.
Þýfða, grýtta, bratta brekkan
bannar það. Og nú ég ligg
illa í því að ég hygg.

Snöggt ég lít til allra átta,
engan sé ég færan veg.
Ætli ég verði úti hérna?
Örlög furðu grimmúðleg
eru það að bera beinin
blómum skrýddri grundu á,
örskammt borgarysnum frá.

Hvers vegna er ég hingað kominn?
Hvað réð því að fíflið ég
ók í fáti út úr bænum
áfram svo um þennan veg.
Einn ég vaki ótta sleginn
ekki kemur maður neinn.
Dey ég hérna?Alveg einn?
 
Ragnar Böðvarsson
1935 - ...


Ljóð eftir Ragnar

Söngur melsins
Kvöldganga
Mánaspjall
Þróun
Tamning
Hringfætla
Í Nólsey
Drög að mansöng
Heimferð
Í búrinu
Sjómannasöngur frá Flandern
Dísin (1968)
Til náungans (1960–1970)
Hvers vegna? (um 1965)
í orðastað stjórnmálamanns
Samhljóðavísur
Álfamærin
Glefsur
Bragreglur
Haustljóð
Nýtt Kötukvæði
Afmæliskveðja
Í Eldhrauni (2008)
Öngstræti
Minningar sægreifans
Úr stjórnmálalífi
Eitt er öruggt
Oddaflug
Eldhúsdagsumræður júní 2011
Sumar 2011
Kveðja gests
Haust 2011
Sólhvarfaljóð
Ráðaleysi
Endarímið góða
Andvaka
Köllun
Norðurferð