Spor í sandi
Ljóð af ljúfri sögu

Tileinkað syni mínum, Stefáni Ingimari.

Nótt eina dreymdi hann drauminn,
hann dreymdi' að hann gengi á strönd.
Hann dreymdi' að hann gengi með Guði.
Þeir gengu þar hönd í hönd.

Hann leit um öxl og líf sitt
gat lesið af sporum þeim,
sem geymd voru' og greypt í sandinn,
og gengin af báðum tveim.

Hann sá þau samhliða liggja
og sólin í heiði skein.
Þá sá hann á spotta og spotta
að sporin voru ein.

Það vakti' honum vafa og furðu,
það virtist oft gerast þar,
sem sorti á líf hans sótti
og sorgir að höndum bar.

Hann leit aftur líf sitt yfir,
og litla stund hann beið,
en eftir það yrti á Drottin
eitthvað á þessa leið:

"Þú hafðir mér heitið forðum,
ef hlýða ég vildi þér,
og þér myndi þjóna og treysta,
að þú skyldir fylgja mér.

En hví sé ég spor þín hvergi,
þá harmi sleginn var?"
Drottinn brosti að bragði:
"Barnið mitt ég var þar.

Þar sem í fjörunni finnst þér
fótsporin vera tvenn,
við hönd mér þig löngum leiddi,
líkt og ég geri enn.

Þar för eftir eina fætur
fjaran einungis ber,
það var á þrautastundum,
þegar ég hélt á þér."  
Þórhallur Hróðmarsson
1942 - ...
Frumtexti er líklega eftir Mary Stevenson


Ljóð eftir Þórhall Hróðmarsson

Augun þín
Ástríða
Bæn
Hugrekki
Minni kvenna
Kántrýkvöld
Tjara
Matarást
Spor í sandi
Vor
Vonin
Vegur sannleikans
Vitið meira
Kynferðislegt áreiti
Atómljóð
Áramótin 1999 - 2000
Hamingjuforskrift
Heilagur tilgangur
Unaðsstund
Love
Hvers vegna ertu ei hér?
Trú
Saskia
Breytingaskeiðin
Fyrsta ástin
Átt og misst
Einstakur koss
Óskastund
Höfuðpaurinn
Þögul ást
Steinninn