Hvers vegna ertu ei hér?
Nú sit ég hér ein(n) með söknuð í hjarta
og syrgi þig stúlkan mín.
Nú er mér horfið brosið þitt bjarta
og blikandi augun þín.

Ég sé ei né skil það svartnættismyrkur,
er setti á hug þinn mar.
Hefði það orðið þér huggun og styrkur,
hefði ég verið þar?

Hvað gerðist, hvað brast, og hvert var þitt kífið,
að hvelfdi þig örvænting slík,
að gæfir þú frá þér gjörvallt lífið?
Nú geymir jörðin þitt lík.

Endalaust spurningar að mér leita
um ólifuð árin manns.
Átti' ekki lífið eftir að veita
þér umbun sársaukans.

Í hvert sinn sem veröldin við mig leikur
og voninni vængi lér.
Hvarflar að spurning, hverful sem reykur.
Hvers vegna ertu ei hér?

Ég vildi að eg gæti þig vafið örmum
og vermt þig við hjarta mitt,
svo grátið þú fengir og gleymt þínum hörmum,
sem gæfi þér lífið þitt.  
Þórhallur Hróðmarsson
1942 - ...
Í minningu ungrar stúlku sem kvaddi lífið of snemma.


Ljóð eftir Þórhall Hróðmarsson

Augun þín
Ástríða
Bæn
Hugrekki
Minni kvenna
Kántrýkvöld
Tjara
Matarást
Spor í sandi
Vor
Vonin
Vegur sannleikans
Vitið meira
Kynferðislegt áreiti
Atómljóð
Áramótin 1999 - 2000
Hamingjuforskrift
Heilagur tilgangur
Unaðsstund
Love
Hvers vegna ertu ei hér?
Trú
Saskia
Breytingaskeiðin
Fyrsta ástin
Átt og misst
Einstakur koss
Óskastund
Höfuðpaurinn
Þögul ást
Steinninn