Vor
Um vanga líður vindur þýður,
vaknar jörð.
Vorið blíða vætir börð.
Og á valla fjölmörg falla
fagurgrænan svörð
lítil lambaspörð.

Ljós að nýju lofar hlýju,
laufið grær.
Vonin nýja vængi fær.
Viðjum spillir, vitin fyllir
vorsins angan blær,
tindrar lækur tær.

Allt er betra er sem letrað
öndvert svið.
Leið er vetrar langa bið.
Lítur sólin laut og hólinn,
loftið ómar við,
af fögrum fuglaklið.

Manngi dúsi' í myrku húsi,
meðan allt
þakkar daginn þúsundfalt.
Hljóðnar kliður, kyrrð og friður
krýpur yfir allt.
Hljótt er húmið svalt.

Hjörtun ungu hlátri þrungin
hefjast brátt.
Hátt er sungið, hlegið dátt.
Og í skjóli undir njólu
af þeim segir fátt.
- Í það minnsta hátt.

Og að morgni engar sorgir
eru til.
Heimi' er borgið, hér um bil.
Aftur sólin sveipar hólinn,
sanda, laut og gil,
vermir, veitir yl.

Litka heiðar blómabreiður,
baula kýr.
Frjáls sér hreiður fuglinn býr.
Kvikna tíðum kann hjá lýðum
kærleikurinn nýr.
Úti' er ævintýr.  
Þórhallur Hróðmarsson
1942 - ...


Ljóð eftir Þórhall Hróðmarsson

Augun þín
Ástríða
Bæn
Hugrekki
Minni kvenna
Kántrýkvöld
Tjara
Matarást
Spor í sandi
Vor
Vonin
Vegur sannleikans
Vitið meira
Kynferðislegt áreiti
Atómljóð
Áramótin 1999 - 2000
Hamingjuforskrift
Heilagur tilgangur
Unaðsstund
Love
Hvers vegna ertu ei hér?
Trú
Saskia
Breytingaskeiðin
Fyrsta ástin
Átt og misst
Einstakur koss
Óskastund
Höfuðpaurinn
Þögul ást
Steinninn